Við erum nýr stuðningsmannaklúbbur á Íslandi, sem stofnaður er af hóp dyggra stuðningsmanna sem vilja sjá samstöðu og samfélag Manchester United stuðningsmanna á Íslandi eflast til muna. 

Okkar markmið er að bjóða félagsmönnum okkar upp á góðan heimavöll þar sem samheldni og stemningu má finna, sem og viðburði sem haldnir verða reglulega United mönnum til skemmtunar. Má þar nefna sérstök Manchester United PubQuiz kvöld í samstarfi við Keiluhöllina og Ölgerðina, bjór- og trúbdor kvöld, fjölskylduskemmtanir sem henta öllum aldurshópum (t.d. bingó) þar sem United þema og vinningar verða ráðandi, árshátíð byrjun tímabils og sumarskemmtanir á borð við golfmót til að stytta okkur stundir. Þá munum við halda í hefðir og gefa félagsmönnum hérlendis gjafir við góð tilefni, skemmtilegan varning sem tengist félaginu okkar góða.

Öflugir og góðir aðilar sem standa að baki stofnun klúbbsins og við munum safna tilboðskjörum víða sem okkar meðlimir fá að njóta góðs af.

Þá erum við viðurkenndur MUSC stuðningsmannaklúbbur (Official Manchester United Supporters Club) og mun félagið eiga tilgreindan fjölda miða á alla heimaleiki félagsins. Í þeim tilgangi að veita félagsmönnum greiðari aðgang að miðum á leiki liðsins - án þess að þurfa að fara í gegnum ferðaskrifstofur. Nánari upplýsingar eru á skráningarsíðunni en okkar. Það er okkar von að geta komið sem flestum Manchester United stuðningsmönnum út á völlinn, á hagstæðari, öruggari og auðveldari hátt en áður hefur boðist okkur Íslendingum. Innan MUSC er erlenda nafn stuðningsmannaklúbbsins "Red Devils of Iceland".

 



Við höfum fengið þær athugasemdir að annar stuðningsmannaklúbbur sé nú þegar til staðar, og afhverju við séum þá eiginlega að stofna annan klúbb? Vegna þeirra athugasemda viljum við koma því á framfæri að við erum alls ekki að reyna að koma í stað þess klúbbs - þvert á móti. Við vonum svo sannarlega að sá stuðningsmannaklúbbur lifi vel og bjóði öðrum aðilum upp á það sem þeir leitast eftir í stuðningsmannaklúbbi - aukið framboð og fjölbreytni fyrir okkur Manchester United stuðningsfólk ætti bara að vera af hinu góða.

Stofnun klúbbsins hefur verið lengi í undirbúningi. Rætt og rökrætt hefur verið við marga aðila, m.a. marga af forsprökkum hins klúbbsins, fyrrum stjórnarmeðlimi og aðra þekkta og dyggt stuðningsfólk Manchester United hér á landi, og höfum við einungis fengið jákvæðar undirtektir í garð stofnun klúbbsins, það sem við höfum og munum gera fyrir Manchester United stuðningsfólk á Íslandi. 

Við finnum þörfina í því að gera betur við stuðningsfólk hér á landi. Og hvernig gerum við það? Með því að bjóða upp á fjölbreytilega viðburði, nútímalegar lausnir til að nálgast fríðindi, upplýsingar og hvað eina, sem og að bjóða upp á heimavöll sem við eigum öll saman og stuðlar vonandi að meiri samheldni en hefur verið innan United samfélags á Íslandi undanfarin ár. Í okkar huga er heimavöllur klúbbsins sá vettvangur þar sem við getum stólað á það að United fólk fjölmennir á, á hverjum einasta leik, að þar sé stemning, að þar séu viðburðir og við getum kynnst, rökrætt málefni líðandi stunda og einfaldlega haft gaman saman. Við erum ekki að þessu til að rífast, reyna tala niður til annarra manna, klúbba eða starfa - þvert á móti. Við erum að þessu því við elskum klúbbinn okkar og viljum gera eitthvað gaman saman, með öllum þeim sem vilja vera með okkur í því!

Við horfum upp á stuðningsmannaklúbba okkar erkifjenda gera gott mót á þessu sviði og ná að halda góðri samheldni, með góðri mætingu og stemningu á þeirra leikjum, ýmsum viðburðum og vettvöngum til að hittast og skemmta sér - sem er algjörlega frábært en miður að svo er ekki staðan meðal okkar fólks.

Þetta er það sem við viljum gera og munum gera. Okkar áherslur eru einfaldlega að hafa gaman saman, geta skapað umhverfi fyrir United stuðningsfólk þar sem við getum komið saman á okkar leikjum og vonandi haldið uppi góðri stemningu, sem og fjölbreyttum viðburðum allt árið um kring, og ekki sakar að geta boðið United stuðningsfólki upp á betri kjör og fríðindi - á þeim viðburðum og utan þeirra til að nýta sér. Við eigum stærsta "fanbase" landsins og nóg er til af fólki sem vill gera vel við sína. 

Eins og fram kemur einnig á skráningarsíðunni sem og víðar á heimasíðunni, mun klúbburinn eiga tiltekinn fjölda á heimaleiki liðsins og viljum við geta deilt þeim út til okkar fólks, án milligönguaðila og ferðaskrifstofa, á kostnaðarverði. Viljum við þannig einnig hjálpa aðilum að komast út á völlinn, með ódýrari og öruggari hætti en að kaupa dýr pakkatilboð sem eru víðast í boði. 

 

Hópurinn sem hefur staðið að þessu er gríðarlega öflugur og fjölbreyttur, með gott tengslanet og þekkingu á þessu sviði og viljum við nýta okkur það til að geta gert eitthvað stórkostlegt saman.  

 

 


Stjórn Leikhús Draumanna - Stuðningsmannaklúbbs Manchester United á Íslandi, tímabilið 2024/25: 

  • Bjarki Dan Garðarsson, formaður
  • Bjarni Hallgrímur Bjarnason, varaformaður
  • Garðar Grétarsson, gjaldkeri
  • Ívar Daníelsson, stjórnarmaður
  • Kári Jón Hannesson, stjórnarmaður

  • Mikael Jóhannesson Tölgyes, varastjórnarmaður
  • Brynjar Örn Birgisson, varastjórnarmaður
  • Halldór Kristinn Guðmundsson, varastjórnarmaður

Stjórn var kosin á fyrsta aðalfundi klúbbsins, skv. lögum félagsins.

 

Fögnum við öllum þeim sem vilja leggja okkur lið, hjálpa á einn hátt eða annan og hvetjum við alla sem hafa fyrirspurnir eða áhuga á okkar starfi að senda okkur tölvupóst á stjorn@manchesterunited.is

Clicky